Saga Ásgarðsskóla
Saga Ásgarðsskóla
Saga og þróun, árangur og áskoranir
Á undanförnum árum hefur umræðan um menntun tekið miklum breytingum, bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi. Aukin áhersla er lögð á farsæld barna, sveigjanleika í skólastarfi, persónumiðað nám og fjölbreytt námsumhverfi. Inn í þetta samtal fellur saga Ásgarðsskóla – skóla í skýjunum sem varð til út frá þörf fyrir fyrirmyndarskólastarf þar sem námskráin og starfshættirnir gerðu ávallt ráð fyrir að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir en þvert á sveitarfélög og staðsetningu.
Upphafið – þegar fjarkennsla varð að skóla
Aðdraganda stofnunar Ásgarðsskóla má rekja til ársins 2017 þegar fræðslustjóri á Höfn í Hornafirði leitaði til ráðgjafarþjónustunnar Ásgarðs með beiðni um fjarkennslu fyrir nokkra nemendur í Hofgarði í Öræfasveit. Þar var um að ræða börn sem áttu erfitt með að sækja hefðbundið skólastarf vegna búsetu og aðstæðna. Beiðninni var tekið og í kjölfarið sinntu kennarar Ásgarðs fjarkennslu í fleiri sveitarfélögum, meðal annars í Norðurþingi og Reykhólasveit. Jafnframt komu upp fjölmörg önnur fjarkennsluverkefni þar sem ráðgjafar Ásgarðs störfuðu með nemendum sem af ýmsum ástæðum gátu ekki nýtt sér hefðbundið skólaumhverfi. Í upphafi árs 2020 var tekin ákvörðun um að stofna fullvaxinn grunnskóla sem starfaði alfarið á netinu – Ásgarðsskóli, skóli í skýjunum.
Hugmyndafræðin – jafnt aðgengi, minna álag, meiri tengsl
Upphaflega var meginsýn skólans að jafna stöðu barna í dreifbýli með því að tryggja þeim aðgengi að fjölbreyttu námi, menntuðum kennurum og félagslegum samskiptum við jafnaldra. Með nýtingu tækni var hægt að færa skólann til barnsins í stað þess að barnið þyrfti að ferðast langar leiðir eða stunda nám einangrað mögulega í mjög fámennum nemendahópi. Fljótlega varð þó ljóst að þessi sýn átti ekki síður við um börn í þéttbýli. Raunveruleikinn hefur sýnt að stór hluti nemenda Ásgarðsskóla kemur af höfuðborgarsvæðinu – börn sem hafa upplifað langvarandi vanlíðan, skólaforðun, kvíða og taugaþroskaáskoranir og alls ekki fundið sig í hefðbundnu skólaumhverfi. Einangrun nemenda var í miklu meira mæli félagsleg en reiknað hafði verið með og í raun ekki bundin við dreifðar byggðir nema í litlum mæli.
Formlegur rammi – þróunarleyfi og varanlegt skólaleyfi
Haustið 2021 fékk Ásgarðsskóli þriggja ára þróunarleyfi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í kjölfarið var staðfestur þjónustusamningur og settar reglur um innritun og útskrift, sem jafngildir í raun leyfi til að reka skólann. Skólinn er formlega skilgreindur sem sérskóli, þó að nemendur fari í gegnum allar námsgreinar og öll markmið aðalnámskrár grunnskóla á unglingastigi. Ástæðan fyrir því að skólinn telst ekki fullnuminn grunnskóli liggur fyrst og fremst í formkröfum sem tengjast skólahúsnæði – ekki gæðum námsins eða árangri og tækifærum nemenda.
Vöxtur og þróun – persónumiðuð nálgun í forgrunni
Í upphafi var aðeins einn nemandi skráður í skólann. Nemendum fjölgaði þó ört og í desember 2021 var fyrsti skólastjóri ráðinn í fasta stöðu. Í janúar árið eftir hófst starfsemi skólans í fullum mæli með fleiri kennurum og samhliða mikilli þróun við gerð námskrárinnar. Það reyndist flóknara en reiknað var með í fyrstu að skrá niður starfshættina og finna leiðir til að standa við þá stefnu skólans að mæta nemendum. Kennarar þurftu mikinn stuðning og smám saman var starfsþróunin bundin inn í starfið og stöðugri endurskoðun á skólanámskrá og útfærslum skólans komið fyrir. Allir nemendur vinna með sömu viðfangsefni en leiðin í gegnum námið er persónumiðuð. Leiðsagnarmat, skýr markmið og regluleg námsviðtöl eru í forgrunni, þar sem nemendur fá skýra mynd af stöðu sinni og næstu skrefum í námi. Skólinn hefur heimild og getu til að taka á móti 50 nemendum. Algengt er að nemendur bætist við eftir því sem líður á skólaárið sem endurspeglar að margir koma til skólans eftir erfiða reynslu annars staðar.
Reynslusögur foreldra – þegar lífið fer að lagast
Margar sögur foreldra lýsa áhrifum skólans á líðan barna og fjölskyldna. Eitt foreldri segir frá barni sem hafði nánast ekki mætt í skóla í tvö ár vegna mikils kvíða. Allar tilraunir í hverfisskóla höfðu mistekist og tilhugsunin um mætingu olli mikilli vanlíðan. Í Ásgarðsskóla breyttist allt. Ekki var eingöngu horft á mætingu sem markmið í sjálfu sér, heldur framfarir, tengsl og öryggi. Smám saman fór barnið að mæta, taka þátt og blómstra. Foreldrið lýsir því að stærsta pressan – að komast út úr húsi á morgnana – hafi horfið og með henni stór hluti álagsins á heimilinu.
Annað foreldri lýsir dóttur sem hafði ADHD-greiningu, var í greiningarferli vegna einhverfu og hafði glímt við mikla þreytu, niðurbrotna sjálfsmynd og félagslega einangrun. Þrátt fyrir góða mætingu í hefðbundnum skóla var álagið orðið henni ofviða. Í Ásgarðsskóla breyttist dagurinn: seinni byrjun, minna áreiti, skýr verkefni og gott aðgengi að kennurum. Eftir stuttan tíma fór barnið að sofa betur, hætti að vera úrvinda eftir skóladaginn, hóf aftur íþróttaiðkun og kláraði námið innan skólatíma – án þess að foreldrar þyrftu að kenna heima. Gleðin tengdist skólanum á ný.
Mat og námsframvinda – skýrleiki í stað óljósra einkunna
Í stað hefðbundinna einkunna leggur Ásgarðsskóli áherslu á framfarastiga og leiðsagnarmat. Nemendur eru staðsettir út frá matsviðmiðum skólans og aðalnámskrá og fá skýrar leiðbeiningar um hvað þarf til að bæta sig. Þetta gerir bæði nemendum og foreldrum kleift að skilja stöðuna, í stað þess að standa frammi fyrir bókstöfum eða tölum eingöngu sem segja lítið um raunverulega færni. Foreldrar upplifa að loksins skilji þeir námslega stöðu barna sinna og hvað þeir geti gert til þess að styðja við nám þeirra og framfarir.
Daglegt skólastarf – raunverulegur skóli í rauntíma
Skóladagurinn í Ásgarðsskóla er skipulagður og fyrirsjáanlegur. Kennsla fer fram í rauntíma, nemendur eru í tímum með kennurum og vinna verkefni í samvinnu við aðra. Þetta er ekki sjálfstætt fjarnám heldur lifandi námssamfélag þar sem samskipti og tengsl eru í forgrunni. Skólinn er ekki tímabundin lausn né „Covid-fjarnám“, heldur alvöru skóli með skólastjórn, kennara, sálfræðing, skólahjúkrunarfræðing og náms- og starfsráðgjafa.
Árangur og áhrif – meira en tölur
Rannsóknir á árangri skólans sýna að rúm 90% nemenda sem útskrifast fara í framhaldsskóla. Foreldrar lýsa aukinni félagslegri virkni, sjálfstrausti og betri líðan barna sinna. Í mörgum tilfellum hefur skólastarf Ásgarðsskóla haft lífsbjargandi áhrif, eins og vitnisburðir nemenda og foreldra sýna. Ótti við félagslega einangrun í skóla á netinu hefur ekki raungerst. Þvert á móti hafa margir nemendur eignast vini jafnvel í fyrsta sinn og taka þátt í skipulögðum hittingum og staðarlotum á vegum skólans og utan skólans.
Niðurstaða – skóli sem mætir samtímanum
Ásgarðsskóli er sprottinn upp úr raunverulegum þörfum barna og fjölskyldna fyrir lausn sem rífur félagslega einangrun í öruggu námsumhverfi heima fyrir. Hann sýnir að þegar skólastarf er byggt á fagmennsku, sveigjanleika og virðingu fyrir ólíkum þörfum nemenda getur árangurinn orðið djúpstæður – ekki aðeins námslega, heldur einnig félagslega og tilfinningalega.
Skólinn heldur áfram að þróast með það að markmiði að skapa fjölbreytt námsumhverfi þar sem fleiri börn fá tækifæri til að blómstra.


