Ásgarðsskóli er grunnskóli í skýjunum – skóli sem starfar alfarið á netinu og byggir á því að börnum sé mætt í námi á þann hátt sem hentar þeim en þó eftir ákveðnum formi og skipulagi sem gerir ráð fyrir að börn læri á ólíkan máta og að áhugasvið þeirra séu ólík. Nemendur eru á unglingastigi.


Í Ásgarðsskóla er horft á framfarir fremur nemenda fremur öllu, á tengsl og samskipti og kerfisbundið samstarf við heimilin og stuðningsumhverfi nemendanna. Kennslan byggir að stórum hluta á leiðsagnarmati en á sama tíma skýrum markmiðum. Allir nemendur vinna samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla og skipulag náms og kennslu byggir kyrfilega á kröfum yfirvalda þrátt fyrir að útfærslan sé að miklu leyti persónumiðuð. Nemendur fara í gegnum námið á sama tíma en kafa mis djúpt og í skólanum er talað um að verkefnin hafi lágan þröskuld en hátt þak.


Reynslan af skólastarfinu hefur verið vonum framar. Foreldrar lýsa því að börn þeirra hafi öðlast sjálfstraust, námsgleði og félagsleg tengsl – oft í fyrsta sinn í langan tíma. Nemendur sem áður voru í alvarlegri vanlíðan eru nú mættir í skólann til að læra, ljúka verkefnum innan skóladagsins og halda áfram á sömu braut í framhaldsskóla.


Ásgarðsskóli er ekki neyðarúrræði né tímabundin lausn. Hann er fullmótaður skóli með kennara, skólastjórn, sálfræðing, náms- og starfsráðgjafa og skýra sýn: að menntun eigi að stuðla að farsæld barna, ekki grafa undan henni. Við vitum að þessi nálgun virkar. Og við vitum líka að hún á ekki aðeins erindi við fáein börn – heldur getur hún orðið fyrirmynd fyrir umbætur á unglingastigi í öðrum hefðbundnum skólum.


IFRAME KÓÐI HÉR